Ljósmyndastofan Svipmyndir var stofnað árið 1977 af ljósmyndurunum Sigurgeiri Sigurjónssyni og Guðmundi Ingólfssyni og var það til húsa að Hverfisgötu 18, “gegnt Þjóðleikhúsinu”. Svipmyndir var ein fyrsta ljósmyndastofan sem einnig lagði áherslu á passamyndir, og hefur ætíð státað sig af því að setja gæðin í þeim myndatökum í öndvegi.

Í upphafi ársins 2001 fluttu Svipmyndir sig um set frá Hverfisgötu 18 að númer 50 í sömu götu, og við sama tækifæri skipti stofan um eigendur. Svo skemmtilega vildi til að bæði húsin eru byggð sama ár, 1906, og eru að mörgu leyti svipuð í útliti. Þar réð í árdaga ríkjum kaupmaðurinn Guðjón Pétursson, sem rak þar myndarlega verslun. Síðar kom þar ein glæsilegasta kjólaverslun Reykjavíkur “Hjá Báru”.

Húsnæðið að Hverfisgötu 50 er glæsilegt og hentar einkar vel sem ljósmyndastofa eins og meðfylgjandi myndir sýna. Núverandi eigandi er Fríður Eggertsdóttir, en hún er viðskiptavinum Svipmynda vel kunn þar sem hún hefur starfað hjá fyrirtækinu allt frá upphafi, fyrst sem aðstoðarstúlka og síðar sem ljósmyndari.

divider


fridur1

Mig langar aðeins að segja ykkur lesendur góðir af sjálfri mér.

Ég tengdist ljósmyndun þegar ég réð mig til vinnu á Barna og fjölskylduljósmyndum sem þá voru í Austurstæti. Nokkru síðar flutti ég mig um set og hóf störf hjá Sigurgeiri Sigurjónssyni á Svipmyndum og hef unnið þar, með góðum hléum, til dagsins í dag.
Ljósmyndun er áhugavert starf, og þar kom að ég ákvað að leggja á brattann og nam ljósmyndun undir handleiðslu Sigurgeirs. Því námi lauk ég 1991.

Frá 1991 leigði ég ásamt fleirum rekstur Svipmynda og síðan ein frá 1994. Þegar Svipmyndir fluttu sig um set í upphafi árs 2001 að Hverfisgötu 50 tók ég alfarið við fyrirtækinu. Svipmyndir er rótgróið fyrirtæki sem skapað hefur sér sess þar sem markmiðið er að allir fari þaðan ánægðir með sínar myndir.

Ljósmyndun er margþætt starf þar sem saman verður að fara persónuleg tengsl við myndefnið, úrvinnsla í myrkrakompunni og síðan frágangur og snyrting mynda. Bylting hefur orðið í stafrænni ljósmyndun á undanförnum árum og höfum við tileinkað okkur þessa nýju og spennandi tækni.
Ég verð að játa að svart-hvítar myndir eru meira í uppáhaldi hjá mér en litmyndir, þar sem þær fyrrnefndu ná betur að draga fram persónuleika fólks.

Auk ljósmyndunar í tengslum við starfið hef ég gaman að mynda náttúruna í sinni ýmsu myndum, þó sér í lagi það smáa.

Við vinnum tvær á ljósmyndastofunni, ég og Eydís Björk.

Ég hef tekið þátt í nokkrum ljósmyndasýningum og má þar nefna:

Samsýning Ljósmyndarafélags Íslands 1992, 1999 (1. verðlaun í flokki portret ljósmynda), 2000, 2001.
Photomessa, Gautaborg 1995
Svensborg 1996
Samsýning í Perlunni 1994
Einkasýning í salarkynnum Hans Petersen í Austurveri 1996

Svipmyndir á facebook

Svipmyndir  |  fridur@svipmyndir.is